Fréttir | 04. febrúar 2021 - kl. 10:33
Leikflokkur Húnaþings vestra vill svör um menningarhús

Leikflokkur Húnaþings vestra vekur athygli á því í grein á vef sínum að Félagsheimilið Hvammstanga hafi ekki verið í fjárlögum þessa árs né í fjármálaáætlun næstu þriggja ára þrátt fyrir vilyrði þar um frá menntamálaráðherra. Leikflokkurinn lagði fram beiðni fyrir um ári síðan til mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að fjármagn yrði sett í félagsheimilið þar sem það lægi undir skemmdum og ástandið færi versnandi. Óskað var eftir að ríkið kæmi að viðhaldi með 70% fjárframlagi og sveitarfélagið með 30% á móti.

Fram kemur í greininni að sveitarfélagið Húnaþing vestra hafi fengið munnlegt vilyrði frá ráðherra mennta- og menningarmála um að félagsheimilið fengi fjármagn í fjárlögum eða fjármálaáætlun næstu þriggja ára. Í ljós hefur komið að engar fjárheimildir eru í fjárlögum þessa árs, né til næstu þriggja ára. Aftur á móti er í fjárlögum 2021 gert ráð fyrir fjármagni í menningarhús á Sauðárkróki en fyrir er annað menningarhús í Skagafirði sem heitir Miðgarður.

Leikflokkurinn spyr því í grein sinni annars vegar; „átti Miðgarður ekki að þjónusta allt Norðurland vestra? Og hinsvegar; fyrst að mögulega er búið að fella það úr gildi af hverju þá að færa sig um ca. 25 km (og í leiðinni innan sama sveitarfélags) þegar Norðurland vestra sem er mjög víðfeðmt svæði með fjallvegum, nær yfir 200 km. svæði eða yfir 7 sveitarfélög?“

Í greininni kemur fram að leikflokkurinn hefur verið upplýstur um samtal sveitarstjórnar, þingmanna og ráðherra menntamála um ósk sveitarfélagsins um aðkomu að viðhaldi. Segir í greininni að Leikflokkurinn leggi mikla áherslu á að þingmenn og ráðherra mennta- og menningarmála beiti sér fyrir því að fjármagn komi til viðhalds og uppbyggingar félagsheimilisins á Hvammstanga sem allra fyrst „svo að sú öfluga menningarstarfsemi sem á sér stað í sveitarfélaginu hafi áfram samastað fyrir starfsemi sína og viðburðahald.“

Lesa má grein Leikflokks Húnaþings vestra hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga