Fréttir | 05. febrúar 2021 - kl. 14:58
SSNV og N4 í samstarf

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og sjónvarpsstöðin N4 hafa gengið frá samstarfssamningi um birtingu efnis frá starfssvæði samtakanna í helstu þáttum sjónvarpsstöðvarinnar á árinu. Samstarf samtakanna og N4 hefur nú varað óslitið frá árinu 2013 og hefur sjónvarpsstöðin framleitt fjölda vandaðra innslaga um það sem efst er á baugi í landshlutanum hverju sinni til birtinga í dagskrá sinni, að því er segir á vef SSNV.

Þar kemur fram að til viðbótar við þessa samninga var hluta þess fjármagns sem varið var til verkefna til að bregðast við aðstæðum vegna COVID-19 á árinu 2020 sett í framleiðslu þáttanna Uppskrift að góðum degi á Norðurlandi vestra þar sem kynnt var fjölbreytt úrval afþreyingar, gistingar og veitingastaða í landshlutanum auk náttúru og mannlífs svæðisins.

Á vef SSNV segir:

„Upphaf samstarfsins má rekja til niðurstöðu könnunar sem unnin var af Gallup þar sem í ljós kom að verulega hallaði á umfjöllun um mannlíf og menningu á Norðurlandi vestra í fjölmiðlum. Einnig þótti mikilvægt að skrásetja með þessum hætti mannlíf á svæðinu, eiga viðtöl við fólk um störf þess og verkefni og þannig  safna aðgengilegu myndefni af íbúum, staðháttum og þróun landshlutans. Ekki er óvarlegt að á þeim árum sem samstarfið hefur varað hafi á bilinu 2-3000 manns af starfssvæðinu komið fram í þáttunum. Heimildagildi þessa efnis er því ótvírætt.

„Könnun sem gerð var meðal þeirra sem komið hafa fram í þáttunum leiddi í ljós 90% ánægju þeirra og svipað hlutfall taldi að umfjöllunin hefði skilað aukinni þekkingu um starfsemi fyrirtækisins og/eða stofnunarinnar. Byggt á  þessum niðurstöðum var auðvelt að taka ákvörðun um að halda samstarfinu við N4 áfram. Þá hefur einnig komið í ljós að umfjöllunin á N4 vakti áhuga annarra fjölmiðla á svæðinu og fór í kjölfarið að bera meira á RÚV, Stöð2, Morgunblaðinu og Vísi á svæðinu.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga