Fréttir | 08. febrúar 2021 - kl. 15:16
Árshátíð Blönduskóla með breyttu sniði í ár
Tilkynning frá nemendum 7. - 10. bekkjar Blönduskóla

Árshátíð Blönduskóla er ein af fjáröflunum 10. bekkjar fyrir vorferð þeirra sem ávallt er farin hér innanlands. Því miður hafa nokkrar hefðbundnar fjáraflanir fallið niður vegna ástandsins í þjóðfélaginu en við vonum að þessi hugmynd okkar að bjóða upp á rafræna árshátíð falli vel í kramið.

Nemendur unglingastigs bjóða til sölu ,,heimabíópakka” sem inniheldur slóð á leiksýningarnar, rafræna leikskrá, og Blönduvision. Pakkinn kostar 3.000 krónur en einnig er í boði að greiða meira, frjáls framlög, ef vill ef t.d. margir ætla að horfa saman og vilja styrkja nemendur meira. Greiða þarf inn á reikning 10. bekkjar: 0307-22-683 kt. 5401201450, senda kvittun á blonduskoli@blonduskoli.is og setja netfang greiðanda í ,,skýringar” eða það netfang sem greiðandi vill að slóðin inn á árshátíðina sé send á. 

Slóðin verður aðgengileg frá föstudagskvöldinu 12. febrúar til sunnudagsins 28. febrúar þannig að fjölskyldur geta ákveðið hvaða kvöld þau vilja taka frá til að horfa. Um leið og greiðsla hefur borist og árshátíðin tilbúin þá verður slóðin send á netfangið sem gefið er upp í greiðsluupplýsingum (gæti tekið nokkrar mínútur, sýnið okkur smá biðlund). Vinsamlega deilið ekki slóðinni. 

Allir nemendur 7. – 10. bekkjar taka þátt í undirbúningi árshátíðarinnar því auk þess að leika, dansa og syngja sjá nemendur um búninga, förðun, leikmynd, leikskrá, sviðs-, ljós- og hljóðvinnu og sjá að auki um að útbúa smáréttaveislu sem þeir ætla að gæða sér á saman á föstudagsmorguninn þegar öllum upptökum og frágangi er lokið.

Við þökkum stuðninginn,

nemendur 7. – 10. bekkjar Blönduskóla

 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga