Fréttir | 09. febrúar 2021 - kl. 13:07
Ný könnun landshlutasamtaka sveitarfélaganna á búsetuskilyrðum og hamingju landsmanna

Vestmannaeyjar, Akureyri og Eyjafjörður eru þau svæði sem best koma út í heildarstigagjöf í nýrri skoðanakönnun meðal íbúa landsins á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags. Skagafjarðarsýsla er í sjöunda sæti á listanum, Vestur-Húnavatnssýsla í áttunda sæti en Austur-Húnavatnssýsla í því tuttugasta. Sunnan verðir Vestfirði, Dalir og Reykhólar lenda í þremur neðstu sætunum af þeim 24 svæðum sem könnunin nær til.

Að könnuninni stóðu landshlutasamtök sveitarfélaga á landinu ásamt Byggðastofnun og var hún gerð á íslensku, ensku og pólsku í september og október síðastliðnum. Niðurstöðurnar byggja á svörum frá 10.253 þátttakendum. Þetta er í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun um þessi efni nær til allra svæða landsins og er markmiðið að hún verði eftirleiðis gerð á 2-3 ára fresti og geti verið sveitarfélögum og stjórnvöldum mikilvægt tæki í búsetu- og byggðaþróun.

Spurt um 40 búsetuþætti
Í könnuninni var landinu skipt upp í 24 svæði og annaðist Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri gerð úrtaks. Að könnuninni og úrvinnslu niðurstaðna unnu Vífill Karlsson, hagfræðingur og ráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Helga María Pétursdóttir, hagfræðingur og ráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Könnunin byggir á hliðstæðri íbúakönnun sem gerð var árið 2017 en könnunin nú var mun viðameiri, auk þess sem fyrri könnun náði ekki til allra svæða landsins. Á þeim svæðum sem báðar kannanirnar náðu til má í sumum tilfellum sjá viðhorfsbreytingar hjá íbúum á þessu tímabili.

Spurt var um 40 atriði sem snerta búsetuskilyrði. Sem dæmi um fjölbreytileika í efnisatriðum má nefna friðsæld, loftgæði, skólamál, atvinnuöryggi, launatekjur, húsnæðismál, nettengingar, vegakerfi, vöruverð, þjónustu við fatlaða og aldraða, rafmagn, ásýnd bæja og sveita, almenningssamgöngur og margt fleira. Efnisatriðin snúa því að samfélagsinnviðum sem og þjónustuþáttum á forræði ríkis og/eða sveitarfélaga.

Vöruverð kom verst út hjá Austur-Húnvetningum
Í Austur-Húnavatnssýslu komu þættir eins og friðsæld, náttúra, öryggi, loftgæði og rafmagn best út þegar horft var til stöðu og mikilvægis landshlutans. Vöruverð kom verst út. Fasteignamarkaðurinn og háskóli voru þeir þættir sem þóttu síst mikilvægir og í slæmri stöðu að auki. Ef munur er skoðaður milli kannana þá batnaði þjónusta við útlendinga mest að gæðum og mikilvægi. Unglingastarf, leikskóli og grunnskóli eru aðrir þættir sem jukust hvað mest að mikilvægi. Vöruverð versnaði mest á milli kannana og sá þáttur sem breyttist mest til hins verra á milli kannana. Almenningssamgöngur og menning drógust mest saman að mikilvægi á milli kannana og þóttu einnig standa illa.

Vegakerfið kom verst út hjá Vestur-Húnvetningum
Í Vestur-Húnavatnssýslu voru þættir eins og friðsæld, náttúra, heilsugæsla, öryggi og loftgæði best út þegar horft var til stöðu og mikilvægis. Vegakerfið kom verst út og þykir mest aðkallandi að bæta úr. Fasteignamarkaðurinn, háskóli og almenningssamgöngur töldust síst mikilvægustu þættirnir auk þess sem þeir stóðu verst. Ef munur er skoðaður milli kannana þá batnaði þjónusta við útlendinga og nettengingar mest. Vöruverð versnaði mest. Almenningssamgöngur drógust mest saman að mikilvægi milli kannana.

Hamingjusamir náttúruunnendur
Stærsti hópur þátttakenda í könnuninni mat hamingju sína 8 á skalanum 1-10. Lítill munur mældist á hamingju íbúa eftir landsvæðum en íbúar í Vestmannaeyjum og Snæfellsnesi reyndust þó hamingjusamastir og marktækt hamingjusamari en á öðrum svæðum landsins. Íbúar höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar voru hins vegar marktækt óhamingjusamari en aðrir í könnuninni.

Þættir á borð við friðsæld, náttúru og loftgæði fengu almennt nokkuð háar einkunnir þátttakenda. Dalamenn eru t.d. ánægðastir með loftgæði en íbúar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri óánægðastir með þau. Hæstu einkunnirnar fyrir náttúruna gáfu íbúar á norðanverðum Vestfjörðum en almennt eru landsmenn þó ánægðir með íslensku náttúruna og lítill munur á viðhorfi þeirra til hennar.

Skýrsluna í heild má nálgast hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga