Skjáskot af Morgunblaðinu 8. febrúar 2020.
Skjáskot af Morgunblaðinu 8. febrúar 2020.
Fréttir | 09. febrúar 2021 - kl. 20:16
Húnvetnsk grágæs líklega flutt til Noregs

Í Morgunblaðinu í gær var sagt frá ferðum íslensku grágæsarinnar NAV sem merkt var á Blönduósi sumarið 2017. Haft er eftir Arnóri Sigfússyni, dýravistfræðingi hjá Verkís, að rétt fyrir áramót hafi hún verið stödd á Norður-Jótlandi og að þetta sé í fyrsta skipti sem íslensk grágæs sjáist í Danmörku, svo vitað sé. Arnór er Blönduósingum kunnugur því hann hefur staðið fyrir merkingum íslenskra grágæsa þar og fylgst með ferðum þeirra.

NAV sást á hefðbundnum vetrarstöðvum íslenskra gæsa á Skotlandi veturinn eftir að hún var merkt og á heimaslóðum á Blönduósi sumrin 2018 og 2019. Arnór telur líklegast að hún hafi verið í Skotlandi síðustu tvo vetur þótt ekki hafi borist tilkynningar um það.

Arnór frétti svo af NAV á Mæri og í Raumsdal og í Þrændalögum í Noregi í maí og október í fyrra. Nú hefur hann fengið upplýsingar um að hún hafi sést í Ålbæk á Norður-Jótlandi í Danmörku 30. desember sl. Það eru óvenjulegar slóðir íslenskra gæsa. Telur Arnór ekki ólíklegt að NAV sé flutt til Noregs og hafi farið suður til Danmerkur með norskum gæsum.

Sjá nánari umfjöllun í Morgunblaði gærdagsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga