Margir gæða sér á bollu í dag
Margir gæða sér á bollu í dag
Fréttir | 15. febrúar 2021 - kl. 09:39
Bolludagur, sprengidagur og öskudagur

Bolludagurinn er í dag og á morgun er sprengidagur og svo öskudagur á miðvikudaginn. Hér á landi hefur það tíðkast í yfir hundrað á að borða bollur á þessum degi. Í bók Árna Björnssonar, Saga daganna, segir að bolluát og flengingar með bolluvöndum hafi líklega borist til Íslands fyrir dönsk eða norsk áhrif á síðari hluta 19. aldar. Líklega að frumkvæði þarlendra bakara sem settust hér að.

Heitið Bolludagur er ekki þekkt fyrr en eftir aldamót og mun orðið til hérlendis. Upphaflega bárust siðirnir að slá köttinn úr tunnunni og að marsera í grímubúningum frá Danmörku fyrir 1870 en lagðist víðast hvar af eftir aldamótin. Þessir siðir héldust samt áfram á Akureyri en 1915 færðust þeir yfir á öskudaginn og hafa síðan smásaman breiðst þaðan út aftur sem öskudagssiðir. Heitið bolludagur sést fyrst á prenti 1910 en annars var dagurinn oft kallaður flengingardagur.

Bolludagur er mánudagurinn í föstuinngangi, sjö vikum fyrir páska. Sprengidagur er þriðjudagur í föstuinngangi fyrir lönguföstu. Elsta heimild um hið íslenska heiti dagsins tengist matarveislu fyrir föstuna. Er það í íslensk-latnesku orðasafni Jóns Ólafssonar Grunnvíkings frá því kringum 1735. Þar segir hann Sprengikvöld þýða orðrétt kvöld sprengingar, það er kvöld miklifenglegrar átveislu með allskonar meðlæti en nefnir einnig að þetta sé sveitamál.

Öskudagur er í vestrænni kristni fyrsti dagur lönguföstu sem hefst í sjöundu viku fyrir páska. Dagurinn hefur lengi verið mikilvægur í kaþólska kirkjuárinu og nafnið á rætur í þeim sið að ösku af brenndum pálmagreinum frá árinu áður var dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta þennan dag og oft til þess notaður sérstakur vöndur. Sú hefð tengd öskudeginum sem ekki finnst annars staðar en á Íslandi er að hengja öskupoka á fólk. Líklega má rekja upphaf þess til kaþólskunnar og krafts öskunnar sem gjarnan var mögnuð með heilögu vatni. Sóttu menn í að taka ösku með sér heim úr kirkjum til að blessa heimilið.

Þessi pokasiður þekkist á Íslandi allt frá miðri 18. öld en er mögulega eldri. Hér skiptist pokasiðurinn lengi vel í tvennt eftir kynjum þannig að konur hengdu öskupoka á karla en karlar poka með steinum á konur. Síðar breyttist siðurinn þannig að fyrst og fremst börn hengdu öskudagspoka á aðra og þá sérstaklega fullorðna og lykilatriði var að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því.

Innihald pokans breyttist líka og gátu þeir verið með litlum gjöfum eða miðum. Þessi siður hefur þó nær alveg horfið og við tekið sá siður að börn gangi í grímubúningum í búðir og fyrirtæki og syngi til að fá sælgæti litlar gjafir eða annað góðgæti. Svipar sá siður til bandarísku hrekkjavöku hefðarinnar.

Heimildir: Wikipedia.org og Árni Björnsson (2000) Saga daganna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga