Fréttir | 15. febrúar 2021 - kl. 12:07
Félag eldri borgara í Húnaþingi mótmælir lokun Arion banka á Blönduósi

Félag eldri borgara í Húnaþingi mótmælir harðlega fyrirhuguðum áformum um að loka alveg útibúi Arion banka á Blönduósi. „Margir innan okkar félags hafa ekki tileinkað sér tölvunotkun og verða því fyrir miklum óþægindum og þjónustubresti ef af áformum bankans verður,“ segir í ályktun sem félagið hefur sent frá sér.

Í henni segir að þjónusta Arion banka hafi sífellt minnkað á undanförnum árum á Blönduósi og að sú þróun hafi byrjað áður en heimsfaraldur COVID-19 hófst, en nú keyri um þverbak. „Það er ekki ólíklegt að sá stóri hópur eldra fólks sem býr á svæðinu og hefur haft áralöng viðskipti við Arion banka og forvera hans og á  inneignir í bankanum, hugsi sér til hreyfings og færi viðskipti sín annað ,ef Arion banki vill ekki lengur þjónusta það á svæðinu,“ segir í ályktuninni.

Félagið vill beina því til forsvarsmanna Arion banka að þeir hætti við fyrirhuguð áform um að loka bankanum og finni ásættanlega lausn á bankaþjónustunni í samstarfi við forsvarsmenn Blönduósbæjar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga