Mynd: ssnv.is
Mynd: ssnv.is
Fréttir | 22. febrúar 2021 - kl. 20:45
Áframhaldandi samstarf um stuðning við smáframleiðendur

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Vörusmiðja BioPol á Skagaströnd hafa gengið frá samstarfssamningi um áhersluverkefnið Matvælasvæðið Norðurland vestra. Verkefnið lýtur að áframhaldandi stuðningi við smáframleiðendur á starfssvæði samtakanna og er unnið í nánu samstarfi við Farskóla Norðurlands vestra, að því er segir á vef SSNV.

Meðal þátta verkefnisins eru stuðningur við ýmiskonar námskeiðahald fyrir smáframleiðendur, sölubíl smáframleiðenda og vefverslun Vörusmiðjunnar. Einnig fellur undir verkefnið kynnisferð til Eldrimmer í Svíðþjóð en það svæði er framarlega hvað full- og heimavinnslu varðar.

Á vef SSNV segir að þetta sé í þriðja skiptið sem áhersluverkefni hafi verið skilgreind sérstaklega til að styðja við smáframleiðendur á starfssvæði samtakanna. Enda hafi slík verkefni skýra skírskotun í Sóknaráætlun landshlutans þar sem áhersla sé lögð á fullvinnslu, sölu beint frá býli, virðisaukningu heima í héraði og stuðning við smáframleiðendur.

Vörusmiðja BioPol er vottað vinnslurými fyrir smáframleiðendur sem staðsett er á Skagaströnd. Þar hafa framleiðendur matvæla aðgang að aðstöðu til þróunar, nýsköpunar og framleiðslu á náttúrulegum mat- og heilsuvörum. Allur aðbúnaðar í Vörusmiðjunni uppfyllir kröfur um öryggi framleiðenda og heilnæmi framleiðsluvörunnar og er þar aðgengi að tækjum og tólum til framleiðslunnar auk stuðnings við þróun, markaðssetningu og sölu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga