Tryggvi er orðinn þjálfari Kormáks Hvatar. Mynd: Aðsend.
Tryggvi er orðinn þjálfari Kormáks Hvatar. Mynd: Aðsend.
Fréttir | 24. febrúar 2021 - kl. 21:15
Tryggvi Guðmundsson þjálfar Kormák Hvöt

Stjórn knattspyrnudeildar Kormáks Hvatar hefur ráðið Tryggva Guðmundsson sem þjálfara meistaraflokks liðsins. „Hér er um hvalreka fyrir húnvetnskt íþróttalíf að ræða, þar sem ferilskrá Tryggva er löng og glæsileg,“ segir í tilkynningu frá stjórninni. Tryggi var markahæsti leikmaður allra tíma í deildarkeppnum á Íslandi, á tugi landsleikja að baki og spilaði með góðum árangri í sterkum liðum í atvinnumennsku erlendis.

Í tilkynningunni segir að Tryggvi og stjórn knattspyrnudeildarinnar hafi sameiginlega sýn á sumarið. Eftir tvö sumur í röð þar sem Kormákur Hvöt festi sig í sessi sem eitt af betri liðum deildarinnar, unnu sinn riðil og komust alla leið að lokaleiknum um sæti í þriðju deild, þá sé það kýrskýrt markmið að klára málið í sumar. „Við ætlum að leika í þriðju deild sumarið 2022.“

Tryggvi verður í sumar búsettur á Bönduósi og hefur þegar tekið til starfa. Fyrsti leikur Kormáks Hvatar á vorönn verður gegn Knattspyrnufélagi Breiðholts og fer fram laugardaginn 6. mars.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga