Fréttir | 25. febrúar 2021 - kl. 12:27
Sveitarstjórn Húnavatnshrepps mótmælir lokun útbús Arion banka á Blönduósi

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps hefur bæst í hóp þeirra sem mótmæla harðlega lokun útibús Arion banka á Blönduósi. Lokunin var rædd á sveitarstjórnarfundi í gær og segir í bókun fundarins að það sé ljóst að á meðan Arion banki loki afgreiðslunni í nafni hagræðingar sé verið að skerða þjónustu og lífsgæði íbúanna á staðnum, sem margir hverjir eru háðir því að þjónustan sé fyrir hendi.

Þá séu það í meira lagi undarleg rök að lokunin sé gerð í hagræðingarskyni á sama tíma og bankinn skili methagnaði ár eftir ár og greiðir milljarða í arð til eigenda sinna. „Bankinn hefur ekki fært nein rök fyrir því að kostnaður við rekstur útibús á Blönduósi sé umfram veltutekjur og þjónustugjöld viðskiptavina sinna á staðnum,“ segir í bókun sveitarstjórnar Húnavatnshrepps.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga