Mynd: ruv.is
Mynd: ruv.is
Fréttir | 12. mars 2021 - kl. 12:06
Um 170 manns gistu á Laugarbakka í nótt

Rúmlega 170 manns gistu á Laugarbakka í nótt eftir að vörubíll lokaði þjóðvegi 1 við Hvammstanga og voru flestir á Hótel Laugarbakka, sem var opnað í snatri. Opnuð var fjöldahjálparstöð í félagsheimilinu á Laugarbakka og þar voru á bilinu 10-20 manns. Á Hvammstanga gistu 15 manns. Flutningabíll hafði runnið til á veginum og sat hann fastur þvert yfir veginn.

Sagt er frá þessu á vef Ríkisútvarpsins. Þar er haft eftir Ævari Smára Marteinssyni í aðgerðastjórn að um 45 manns úr fjórum björgunarsveitum hefðu tekið þátt í aðgerðunum í gær. „Upphaflega voru þetta bara þrír bílar sem voru fastir þarna. En svo kom í ljós þegar nær var komið að þetta voru einhvers staðar á milli 100 og 150 bílar sem voru orðnir stopp þarna og vörubíll sem þveraði veginn,“ segir Ævar Smári. Hann segir að ágætlega hafi gengið að aðstoða ökumenn og að öllum hafi verið komið í skjól í gærkvöldi.

Örn Arnarsson hóteleigandi hafði hraðar hendur og opnaði Hótel Laugarbakka í gærkvöldi. Hann segir að fólk hafi verið mjög ánægt og fengið að komast í skjól og í rúm, og svo fengu allir grillaðar samlokur og franskar.

Sjá nánari á vef Ríkisútvarpsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga