Mynd: blonduos.is
Mynd: blonduos.is
Fréttir | 29. mars 2021 - kl. 11:49
Blönduósbær auglýsir sumarstörf

Blönduósbær auglýsir á heimasíðu sinni sumarstörf 2021. Auglýst er eftir flokksstjórum við vinnuskólann, starfsmann til að sjá um sumarnámskeið barna og starfsfólks til að sinna hreinsun, umhirðu og fegrun bæjarins. Umsóknarfrestur fyrir öll störfin er til og með 9. apríl næstkomandi.

Starfsmaður Sumarfjörs
Sumarfjör Blönduósbæjar óskar eftir að ráða starfsmann í sumarstarf frá 3. júní til 30. júlí 2021. Um 60-70% starf er að ræða með möguleika á 100% starfi. Sumarfjör Blönduósbæjar er sumarnámskeið fyrir börn fædd 2011-2015. Lögð er áhersla á gleði, skemmtun, sköpun og jákvæð samskipti. Starfsmaður mun líka koma að undirbúningi og framkvæmd á Húnavöku í samvinnu við menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúa Blönduósbæjar.

Flokkstjórar við vinnuskóla
Vinnuskóli Blönduósbæjar starfar í júní og júlí ár hvert. Þar gefst 13-16 ára unglingum (fæðingarár 2005-2008) kostur á að vinna við fjölbreytt störf hjá bæjarfélaginu. Í vinnuskóla er unglingum kennt að umgangast verkefni sín, notkun verkfæra og vinna fjölbreytt störf.

Sumarstarfsmenn
Helstu verkefni eru hreinsun og fegrun bæjarins, umhirða gróðurs, beðahreinsun, sláttur, gróðursetning trjáa og sumarblóma og fleiri tilfallandi störf.

Nánari upplýsingar má sjá á vef Blönduósbæjar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga