Fréttir | 15. apríl 2021 - kl. 08:58
Afmælisblað Feykis

Héraðsfréttablaðið Feykir átti 40 ára afmæli 10. apríl síðastliðinn. Fyrsta tölublaðið kom út 10. apríl árið 1981 og í kjölfarið var haldinn stofnfundur hlutafélags um útgáfu á frjálsu, óháðu fréttablaði á Norðurlandi vestra. Í tilefni afmælisins hefur Feykir gefið út afmælisblað þar sem 40 ára sögu blaðsins er minnst með ýmsum hætti. Í blaðinu eru viðtöl, upprifjanir og skemmtilegar minningar svo eitthvað sé nefnt.

Meðal viðmælenda sem spurðir voru út í kynni sín af blaðinu eru Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, Ragnar Z. Guðjónsson, ritstjóri Húnahornsins og Sigfús I. Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði. Ingi Heiðmar Jónsson var einn af þeim sem fengnir voru í viðtal en hann hefur verið áskrifandi frá upphafi og jafnaldri blaðsins og nafni, Ómar Feykir Sveinsson, er spurður út í nafngiftina og fleira. Finna má skemmtilega upprifjun þeirra Inga V. Jónassonar og Björns Jóhanns Björnssonar frá þeirra Feykisárum en þeir störfuðu sem blaðamenn þá um tvítugt. Ingi býr nú úti í Svíþjóð og stýrir þar fyrirtæki og Björn Jóhann vinnur á Morgunblaðinu.

Hörður Ingimarsson minnist vinar síns Gunnars í Hrútatungu, sem lést nýverið og Haukur Skúlason, þjálfari karlaliðs Tindastóls, er spurður um boltann og Lilja Hauksdóttir svarar Rabbababbi. Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við HA, er tekinn tali og spurður út í framtíð fjölmiðlunar og Guðni Friðriksson, sem prentað hefur Feyki í 34 ár segir frá helstu breytingum og nýjungum í prenttækninni. Anna Elísabet Sæmundsdóttir stýrir áskorendapennanum og Herdís Pálmadóttir sýnir lesendum hvernig á að útbúa fiskisúpu og mulningspæju.

Fleira má finna innanum það sem hér hefur verið upptalið og allir hvattir til að lesa Feyki eða ná sér í einn rafrænan, sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga