Gaman á körfuboltanámskeiði
Gaman á körfuboltanámskeiði
Hressir krakkar
Hressir krakkar
Ãhugasamir iðkendur
Ãhugasamir iðkendur
Námskeiðin gengu glimrandi vel
Námskeiðin gengu glimrandi vel
Fréttir | 19. apríl 2021 - kl. 18:47
Þriðjungur nemanda Húnavallaskóla á körfuboltanámskeiði um helgina

Körfuboltaskóli Norðurlands hélt tvö körfuboltanámskeið í Húnavallaskóla á laugardaginn og gengu þau glimrandi vel. „Þar er mjög góð aðstaða til körfuboltaiðkunar, líkt og víða er á Norðurlandi,“ segir Helgi Freyr Margeirsson þjálfari. Hann segir að markmið körfuboltaskólans sé að koma körfubolta framar í huga krakkanna þegar þau eru að horfa til íþróttaiðkunar og þar sem fámennið er henti körfuboltinn mjög vel.

„Vegna kórónuveirufaraldursins vorum við búin að fresta námskeiðunum en við náðum að skjóta þeim inn núna rétt fyrir sauðburð þegar álag á mörgum bæjum í sveitinni eykst og minni tími til að sækja námskeið,“ segir Helgi Freyr í samtali við Húnahornið. 

Hann segir að námskeiðin hafi gengið alveg glimrandi vel, krakkarnir hafi verið mjög sprækir og áhugasamir sem skilaði sér í framförum strax á fyrsta námskeiði. „Það er svo gaman að segja frá því að það mættu rúmlega þriðjungur af nemendum Húnavallaskóla á námskeiðin tvö, annað fyrir yngri bekki, fyrsta til fimmta, og svo það síðara fyrir eldri bekkina, sjötta til tíunda bekk. Það er von okkar sem stóðum að þessu að næst náum við meira en helmingi nemenda á námskeið,“ segir Helgi Freyr og bætir við að körfuboltaskólinn hefði gefið fjóra körfubolta fyrir yngsta aldurinn sem vonandi nýtist þeim vel.

Helgi Freyr tekur fram að námskeiðin voru krökkunum að kostnaðarlausu þar sem Ungmennafélögin Geislar og Bólhlíðingar hafi boðið upp á þau, sem var frábært framtak. „Það var mikil jákvæðni með þetta og strax spurt hvenær væri von á öðru námskeiði, sem verður vonandi sem fyrst.“

Aðspurður um starfsemi körfuboltaskólans á tímum heimsfaraldurs segir Helgi Freyr að starfsemi hans hafi verið mjög stopul í vetur. Það hafi samt tekist að halda námskeið á Skagaströnd, Hólmavík, Hvammstanga og Sauðárkróki, og nú síðast á Húnavöllum. Og þá sé bara Blönduós eftir, en vonandi verði þar námskeið fljótlega.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga