Fréttir | 10. maí 2021 - kl. 16:09
Óskað eftir tillögum að nafni á Textíllistamiðstöðina

Textílmiðstöð Íslands óskar eftir góðu nafni á Textíllistamiðstöðina sem staðsett er í Kvennaskólanum á Blönduósi. Listamiðstöðin er ætluð listafólki, fræðafólki og hönnuðum sem vinna með textíl og hefur hún verið starfrækt frá 2013. Textíllistamiðstöðin er nú undir sameiginlegri stjórn með Textílmiðstöð Íslands - Þekkingarsetur á Blönduósi. „Það sem Textíllistamiðstöðinni og Textílmiðstöðinni er oft ruglað saman, leitum við eftir nýju sérnafni fyrir listamiðstöðina,“ segir í tilkynningu.

Þar segir einnig:

Listamiðstöðin hefur verið mjög vel sótt á undanförnum árum. Listamenn dvelja í Kvennaskólanum á Blönduósi í það minnsta mánuð í senn og sækja þau alla þjónustu á svæðinu. Koma þeirra hefur verið uppspretta ýmissa samstarfsverkefna og tengslanetið sem er að byggjast upp er mikilvægt fyrir alla starfsemina. Fegurð svæðisins berst líka víða eins og sjá má á Instagramsíðu okkar (@textilmidstod).

Leitað er til ykkar eftir góðu nafni sem þarf að berast fyrir ársfundinn sem haldinn verður 28. maí, þar sem fulltrúaráðið mun kjósa um nafnið, úr þeim tillögum sem berast.

Mikilvægt er að nafnið sé: Stutt, hljómfagurt, falli vel bæði af íslensku og ensku, sé lýsandi fyrir starfsemina eða svæðið!

Tillögur berast á netfangið; textilmidstod@textilmidstod.is fyrir kl. 14:00, 27. maí, 2021.

Bestu þakkir, starfsfólk Textílmiðstöðvarinnar

Hægt er að senda tillögu með því að smella hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga