Kaupsamningur undirritaður. Mynd: FB/Blanda, Róbert D. Jónsson
Kaupsamningur undirritaður. Mynd: FB/Blanda, Róbert D. Jónsson
Atvinnuhúsnæði rís á Miðholti. Mynd: FB/Blanda, Róbert D. Jónsson
Atvinnuhúsnæði rís á Miðholti. Mynd: FB/Blanda, Róbert D. Jónsson
Gamla húsnæðið selt. Mynd: FB/Blanda
Gamla húsnæðið selt. Mynd: FB/Blanda
Fréttir | 24. maí 2021 - kl. 19:53
Bylting fyrir starfsemi Blöndu

Björgunarfélagið Blanda hefur undirritað kaupsamning um kaup á nýrri aðstöðu fyrir starfsemi félagsins. Aðstaðan verður í nýju atvinnuhúsnæði sem rís á Miðholti á Blönduósi. Blanda hefur fest kaup á tveimur bilum eða samtals 434 fermetrum. Nýbyggingin verður 1.739 fermetrar að stærð, skiptist í ellefu misstórar einingar og mun hýsa margskonar atvinnustarfsemi.

„Það eru mikil tímamót í starfi okkar um þessar mundir. Líklegast ekki verið jafn stórt skref stigið til uppbyggingar síðan okkar gamla hús var byggt í sjálfboðavinnu. En nú eru aðrir tímar og var starfsemi félagsins farin að kalla á miklar breytingar á húsnæðinu og einnig allnokkur viðhaldsþörf á því framundan,“ segir á facebooksíðu björgunarfélagsins.

Húsnæðið verður búið þrem stórum innkeyrsluhurðum, með gegnum keyrslu í gegnum tvær þeirra. Búnaðar og skápaaðstöðu fyrir félaga, fundarsal, eldhúsi, aðgerðarstjórnstöð og geymslurými á millilofti. Einnig verður uppsett rafstöð sem sér sjálfvirkt um að halda húsnæðinu fyrir rafmagni í rafmagnsleysi.

„Þetta verður mikil bylting fyrir starf félagsins, en með þessu fáum við mikið betra pláss fyrir björgunartæki og búnað ásamt því að aðbúnaður félagsmanna verður eins og best verður á kosið. Stjórn félagsins óskar ykkur öllum til hamingju með þennan áfanga,“ segir á facebooksíðu Björgunarfélags Blöndu.

Gamla húsnæðið selt
Húsnæði Blöndu hefur verið á Efstubraut 3 á Blönduósi undanfarna áratugi en það var byggt í sjálfboðavinnu af félögum í Hjálparsveit skáta á Blönduósi og Björgunarsveitarinnar Blöndu á árunum 1970 til 1980. Félögin voru svo sameinuð árið 1999 í Björgunarfélagið Blöndu. Blanda hefur nú undirritað samning um sölu á húsnæðinu og er kaupandinn Tækniþjónustan Dráttur ehf. Starfsstöð Blöndu mun verða á Efstubraut 3 þangað til nýja húsnæðið á Miðholti verður tilbúið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga