Frá Skagaströnd
Frá Skagaströnd
Fréttir | 25. maí 2021 - kl. 14:31
Neikvæð rekstrarniðurstaða hjá Skagaströnd

Ársreikningur sveitarsjóðs Skagastrandar og stofnana fyrir árið 2020 var tekinn til síðari umræðu á sveitarstjórnarfundi í síðustu viku. Rekstrarniðurstaðan var neikvæð um 22,7 milljónir króna en árið 2019 var hún jákvæð um sömu tölu. Rekstrartekjur sveitarfélagsins námu 667,5 milljónum króna og lækka um 1,8% milli ára. Rekstrargjöld námu 684,8 milljónum og hækka um 5,2% milli ára.

Rekstrarniðurstaða ársins er 31,6 milljónum króna betri en áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir. Heildareignir sveitarfélagsins námu í árslok 1.794 milljónum og eigið fé var um 1.333 milljónir.

Í ársreikningnum segir að COVID-19 hafi haft nokkur áhrif á rekstur sveitarfélagsins á árinu 2020. Áhrifin komi fram í lækkun tekna þar sem meðal annars var ekki rukkað fyrir þjónustu sem íbúar gátu ekki nýtt sér. Á móti hafi kostnaðarliðir haldið sér og einni hækkað á ýmsum sviðum vegna sóttvarna og aukinnar þjónustu. Þá segir að áhrifa faraldursins muni gæta áfram eitthvað fram eftir þessu ári en að það sé mat stjórnenda að greiðslu- og rekstrarhæfi sveitarfélagsins sé þó ekki ógnað.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga