Mynd: folf.is
Mynd: folf.is
Fréttir | 26. maí 2021 - kl. 12:08
Vilja frisbígolfvöll á Skagaströnd

Folfklúbburinn Fljúpnir hefur sent hafnar- og skipulagsnefnd Skagastrandar erindi þar sem óskað er eftir leyfi til þess að staðsetja níu holu frisbígolfvöll sunnan og austan við tjaldsvæðið að Höfðahólum. Framkvæmdin felur í sér að handmoka níu holur og steypa frisbígolfkörfur niður. Þá verða gerðir kastteigar með trjákurli og skilti sett upp við hvern teig.

Í erindinu kemur fram að rask vegna framkvæmdanna séu minniháttar. Þar kemur einnig fram að Ungmennafélagið Fram á Skagaströnd ætli að leggja 700 þúsund krónur til verkefnisins ef af verður.

Hafnar- og skipulagsnefnd fór yfir málið og sá að þarf að breyta gildandi Aðalskipulagi og því þarf ekki að leggja í breytingu á deiliskipulagi vegna framkvæmdanna. Nefndin bendir hins vegar á að staðsetning fyrstu brautar sé óheppileg með tilliti til þess að hún fer þvert yfir veginn inn á tjaldsvæðið og er lagt til að hún verði færð frá aðkomu.

Sveitarstjórn Skagastrandar tekur jákvætt í erindið og hefur sveitarstjóra verið falið að vinna verkefnið áfram með hagsmunaaðilum. Á síðasta sveitarstjórnarfundi var samþykkt að leggja 500 þúsund krónur til verkefnisins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga