Húnavellir
Húnavellir
Fréttir | 27. maí 2021 - kl. 10:58
Nám við umhverfisakademíu á Húnavöllum gæti hafist haustið 2022

Í skýrslu starfshóps um umhverfisakademíu í Húnavallaskóla kemur fram að litið var til Lýðskólans á Flateyri sem fyrirmynd að rekstrarmódeli. Miðað er við að undirbúningur að stofnun akademíunnar hefjist síðar á þessu ári og ljúki næsta vor. Skráning nemenda geti þá hafist og stefnt er á að nemendur hefji nám haustið 2022. Gert er ráð fyrir ráðningu skólastjóra eða verkefnastjóra sem allra fyrst til að vinna að undirbúningi stofnunar akademíunnar.

Skýrsla starfshópsins er nú aðgengileg á Húnvetningi.is, vef samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Samstarfsnefndin skipaði starfshóp 23. febrúar síðastliðinn til að meta hvort hugmyndin um umhverfisakademíu væri fýsilegur kostur, skilgreina helstu áhrifaþætti og stilla upp hugmynd að formi og næstu skrefum. Í hópinn voru skipuð Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri á Skagaströnd, Einar K. Jónsson, sveitarstjóri Húnavatnshrepps, Magnús Jónsson, verkefnastjóri hjá SSNV, og Magnús B. Jónsson fyrrverandi sveitarstjóri á Skagaströnd.

Í skýrslunni kemur fram að hugmyndin byggir á því mati að það sé í raun engin skóli á Íslandi sem marki sér þá sérstöðu að vera umhverfisfræðsluskóli þótt víða sé hægt að finna greinar á sviði umhverfisfræða í námskrám háskólanna. Að því leyti sé þarna sennilega eyða í menntakerfinu sem hægt væri að fylla í með sérstökum umhverfisskóla. Einnig var horft til þess að til staðar er góð aðstaða á Húnavöllum því húsnæði þar er orðið of stórt fyrir núverandi skólahald. Þá var einnig talið að í tengslum við undirbúning sameiningar ættu að vera sóknarfæri til að afla stuðnings ríkisins við nýjar og áhugaverðar hugmyndir og fá fjárhagslegan og pólitískan stuðning til framkvæmda.

Skýrslu starfshópsins má lesa hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga