Fréttir | 27. maí 2021 - kl. 11:24
Sterkari stjórnsýsla með sameiningu

Morgunvakt Rásar-1 tók Jón Gíslason, formann samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu, tali í gær og forvitnaðist um tilgang og markmið sameiningar. Jón sagði m.a. að sameining væri eðlilegt framhald af miklu samstarfi sveitarfélaganna í gegnum byggðasamlög í mörgum stórum málaflokkum og tilgangurinn væri að búa til sterkari stjórnsýslueiningu. Nefndi hann einnig að það hefði verið þrýstingur frá stjórnvöldum að sameina og verið væri að bregðast við því kalli.

Jón sagði að sveitarfélögin ættu við fólksfækkun að stríða, að ný atvinnutækifæri vantaði og að það bráðvantaði fleiri stoðir undir atvinnulífið. Með sameiningu væri verið að búa til samstöðu fyrir samgöngubótum og markvissari aðgerðum til að markaðssetja Austur-Húnavatnssýslu sem álitlegt svæði fyrir komandi kynslóðir. Það væri mikilvægasti punkturinn gagnvart framtíðinni.

Hlusta má á viðtalið við Jón hér en það hefst eftir 1 klst. og 20 mín.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga