Frá Blönduósi
Frá Blönduósi
Fréttir | 01. júní 2021 - kl. 14:44
Fasteignamat hækkar um 7,4%

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,4% frá yfirstandandi ári og verður 10.340 milljarðar króna, samkvæmt  fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2022. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan þegar fasteignamat hækkaði um 2,1% á landinu öllu. Fasteignamat íbúða hækkar um 8,9% á höfuðborgarsvæðinu á meðan hækkunin er 5,2% á landsbyggðinni.

Mesta hækkunin er á Vestfjörðum eða um 16,3%, hækkunin er 8,6% á Norðurlandi vestra, 6,7% á Suðurlandi, 6,6% á Austurlandi, 5,1% á Suðurnesjum, 4,8% á Vesturlandi og 4,2% á Norðurlandi eystra. Í Blönduósbæ hækkar fasteignamat um 7,7% á Skagaströnd um 13,8%, í Skagabyggð um 5,5%, í Húnavatnshreppi um 6,7% og í Húnaþingi vestra um 10,7%.

Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 7,9% á milli ára og verður alls 7.155 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 8,2% á meðan fjölbýli hækkar um 7,7%. Fasteignamat íbúða hækkar mest í Bolungarvíkurkaupstað en þar hækkar íbúðarmatið um 30,7%, í Kjósarhreppi um 29,4% og í Ísafjarðarbæ um 23,6%. Mestu lækkanir á íbúðamati eru í Skorradalshreppi þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 2,6%.

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 6,2% á landinu öllu; um 5,4% á höfuðborgarsvæðinu en um 8% á landsbyggðinni.

Á vef Þjóðskrár www.skra.is má fletta upp breytingum á fasteignamati milli ára auk þess sem mikil áhersla hefur verið lögð á myndræna og notendavæna framsetningu á nýju fasteignamati. Þannig geta eigendur fasteigna og aðrir bæði kynnt sér breytingar á einstökum eignum sem og þróun á milli ára eftir landsvæðum og mismunandi tegundum eigna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga