Fréttir | 02. júní 2021 - kl. 07:03
Ferðagjöf 2021 aðgengileg þeim sem vilja

Ferðagjöf 2021 er aðgengileg hér á Ísland.is og þurfa allir sem ætla að nýta sér gjöfina að skrá sig aftur inn og sækja nýja Ferðagjöf. Allir einstaklingar með lögheimili á Íslandi, fæddir 2003 og fyrr, fá Ferðagjöf að andvirði 5.000 krónur. Ferðagjöfin er afhent í formi strikamerkis sem hægt er að sýna eða lesa upp þegar greitt er fyrir þjónustu hjá ferðaþjónustufyrirtæki sem er með í verkefninu.

Gjöfin er liður í því að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Gildistími ferðagjafar er frá útgáfudegi til og með 30. september 2021.

Samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar notuðu 206.853 ferðagjöfina sína í fyrra og voru ónotaðar ferðagjafir 19.395 talsins. FlyOver Iceland var það fyrirtæki sem hagnaðist mest á ferðagjöfinni en KFC reyndist vinsælasti matsölustaðurinn meðal ferðagjafareigenda.

Á Norðurlandi vestra var ferðgjöfin notuð fyrir um 18 milljónir króna; átta milljónir í afþreyingu, tæplega átta milljónir í gistingu og tæplega þrjár milljónir í veitingastaði. Mest var ferðagjöfin notuð hjá 1238: The Battle of Iceland, fyrir rúmar fjórar milljónir og næst mest á Hótel Laugarbakka, um 1,7 milljón.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga