Fréttir | 05. júní 2021 - kl. 23:32
Sveitarfélögin fjögur sameinast ekki

Kjörstjórnir hafa lokið talningu atkvæða í Blönduósbæ, Húnavatnshreppi, Skagabyggð og Sveitarfélaginu Skagaströnd. Tillaga um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra var felld. Íbúar í Blönduósbæ samþykktu sameiningu þar sem 89,4% sögðu já og 9,5% nei. Íbúar í Húnavatnshreppi samþykktu einnig sameiningu þar sem 56,6% sögðu já og 41,8% nei. Íbúar í Skagabyggð og á Skagaströnd felldu sameiningartillöguna.

Á Skagaströnd sögðu 69,2% íbúa nei og 28,7% já. Í Skagabyggð sögðu 54,7% nei og 45,3% já.

Kjörsókn á Blönduósi var 71%, á Skagaströnd 84%, í Húnavatnshreppi 85% og í Skagabyggð 84%.

Sveitarstjórnirnar fjórar hafa lýst því yfir að þær muni ekki nýta heimild í sveitarstjórnarlögum, komi til þess að sameiningartillaga verði samþykkt af íbúum í hluta sveitarfélaganna, nema að undangengnu samráði við íbúa. Í því felst að hafni íbúar einhvers sveitarfélaganna tillögu um sameiningu í kosningum, munu aðrar sveitarstjórnir ekki taka ákvörðun um sameiningu þeirra sveitarfélaga án þess að hafnar verði nýjar sameiningarviðræður og kosið að nýju.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga