Dagný Rósa Úlfarsdóttir
Dagný Rósa Úlfarsdóttir
Fréttir | 06. júní 2021 - kl. 15:20
Niðurstaðan vonbrigði

Dagný Rósa Úlfarsdóttir, oddviti hreppsnefndar Skagabyggðar, segir úrslitin í kosningum um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu vera vonbrigði enda hafi sveitarfélögin lagt mikla vinnu í undirbúning undanfarna mánuði. Hún segir niðurstöðurnar hafi komið sér og fleirum í samstarfsnefnd um sameiningu á óvart og íbúum í Skagabyggð reyndar líka.

Þetta kemur fram í viðtali við Dagnýju Rós á visir.is í dag. Aðeins vantaði fimm atkvæði upp á að tillagan væri samþykkt í Skagabyggð en Dagný Rósa segir að þannig virki lýðræðið og að meirihlutinn ráði. Spurð að því hvers vegna hún telur að tillagan hafi verið felld segir hún ekki vita hvort að einhver ein ástæða hafi búið að baki. Nefnir hún að kannski hafi það verið hræðsla við að verða einhvers konar jaðarbyggð í stærra samfélagi.

Sjá nánari umfjöllun á visir.is.

Steingrímur Ingvarsson, formaður kjörstjórnar í Húnavatnshreppi, segir í samtali við Ríkisútvarpið í dag sameiningarmálið vera mikið hitamál í hreppnum og að þar séu margir óánægðir með niðurstöðuna. Hann veltir því fyrir sér hvort það verði ekki áframhaldandi viðræður milli Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar. Best hefði þó verið að sameina öll sveitarfélögin, það hefði verið hagstætt fyrir byggðina að standa frekar saman.

Sameiningartillaga samstarfsnefndarinnar var samþykkt í gær á Blönduósi og í Húnavatnshreppi en hafnað á Skagaströnd og í Skagabyggð.

Sjá nánari umfjöllun á vef Ríkisútvarpsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga