Húnavellir
Húnavellir
Fréttir | 23. júní 2021 - kl. 10:38
Viðræður um sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar ekki sögð tímabær

Meirihluti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps telur ekki tímabært að hefja viðræðu um sameiningu við Blönduósbæ að svo stöddu. Heitar umræður urðu um málið á fundi sveitarstjórnar í gær. Meirihlutinn telur mjög mikilvægt að öll sveitarfélögin vinni áfram sameiginlega að þeim málaflokkum sem þau hafi nú þegar byggðasamlög um og að teknu tilliti til niðurstöðu í nýafstöðnum sameiningarkosningum sé ekki tímabært að hefja viðræður um annars konar sameiningu, eins og segir í bókun. Fimm sveitarstjórnarfulltrúar af sjö skrifa undir bókunina.

Í kosningu um sameiningu sveitarfélaganna allra í Austur-Húnavatnssýslu 5. júní síðastliðinn var sameining samþykkt í Húnavatnshreppi og Blönduósbæ en henni var hafnað í Skagabyggð og á Skagaströnd. Í kosningunni samþykktu 89,4% Blönduósbúa sameiningu og það gerðu 56,6% íbúa í Húnavatnshreppi einnig. Vonir stóðu til þess að þessi tvö sveitarfélög myndu halda áfram sameiningarviðræðum og hefur sveitarstjórn Blönduósbæjar m.a. hvatt til viðræðna hið fyrsta um sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar.

Í bókun fulltrúa E-lista á fundi sveitarstjórnar í gær kemur fram að þeir telja afstöðu meirihlutans skýrt brot á lýðræði íbúanna þar sem hann ákveður þvert á niðurstöður kosninga að hafna frekari sameiningarviðræðum við Blönduósbæ á þessum tímapunkti. Finnst fulltrúum E-lista að valdið eigi að liggja hjá íbúum sveitarfélagsins. Gott verk hafi verið unnið í sameiningarviðræðunum hingað til og því ætti að vera sterkur grunnur nú þegar til að byggja á áframhaldandi viðræður í stað þess að þurfa að byrja á byrjunarreit síðar. Meirihlutinn vísaði á bug að verið væri að brjóta á lýðræðislegum réttindum íbúa.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga