Fréttir | 27. júní 2021 - kl. 17:11
Gamla Blöndubrúin verður ný göngubrú út í Hrútey

Það er óhætt að segja að mikill spenningur og eftirvænting hafi verið í þeim sem mættir voru við Hrútey í gærkvöldi þegar gömlu Blöndubrúnni var komið fyrir á varanlegum stað sem göngubrú út í Hrútey. Ekkert dugði nema stærsti krani landsins í verkið en brúin vegur liðlega 30 tonn og er um 40 metrar á lengd.

Gamla brúin var vígð árið 1897 og þjónaði sínu hlutverki á Blönduósi til ársins 1962 þegar ný brú yfir Blöndu var tekin í notkun og sú gamla flutt fram í Svartárdal. Brúin var síðan flutt aftur á Blönduós árið 2001 og hefur fram að deginum í gær verið geymd í Kleifarhorninu þar sem hún var tekin í gegn í fyrra og m.a. sandblásin og máluð að nýju. Brúin var flutt yfir núverandi Blöndubrú í gærdag og komið fyrir á tveimur steyptum stöplum í gærkvöldi að viðstöddu fjölmenni en margir íbúar og vegfarendur fylgdust með herlegheitunum.

Þegar þetta er skrifað er ekki alveg ljóst hvenær hægt verður að nota brúnna en stefnt er að því að hefja vinnu við það strax á morgun.

Hægt er að sjá myndband af hýfingunni á Facebooksíðu Auðuns Sigurðssonar fréttaritara Húnahornsins fyrir þá sem misstu af þessu í beinni útsendingu.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga