Fréttir | 30. júní 2021 - kl. 00:34
Sveitarstjóra falið að undirbúa uppsögn á samstarfssamningi sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu

Sveitarstjórn Blönduósbæjar ákvað á fundi sínum í gær að fela sveitarstjóra að undirbúa uppsögn á þeim samstarfssamningi sem gerður var 6. júní árið 2008, á milli Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar. Sá samningur bar vinnuheitið „Samstarfsverkefni sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu“ og þar með allar þær samþykktir um byggðasamlög sem fylgja þeim samningi og dagsettur var 3. júní 2008.

Í fundargerð sveitarstjórnar segir orðrétt: „Meðal annars er vísað til erindis frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dagsettu 24. ágúst 2020, þar sem gerðar eru athugasemdir við samþykktir byggðasamlaga, þeirrar vinnu sem unnin var á vettvangi samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaga í Austur Húnavatnssýslu, fyrirliggjandi breytinga á barnaverndarnefndum og fyrri ályktana/bókana Blönduósbæjar um sama efni.“

Sveitarstjórn Blönduósbæjar vill þó árétta að fullur vilji sé til áframhaldandi samstarfs sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu um þau málefni sem nú eru í byggðasamlögum samkvæmt samstarfssamningi.

„Er þessi ákvörðun tekin með fyrirvara um endurskoðun, komi til frekari sameiningar í Austur-Húnavatnssýslu“ segir í fundargerð sveitarstjórnar frá fundinum í gær.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga