Fréttir | 04. júlí 2021 - kl. 07:12
Öruggur sigur á Létti

Kormákur/Hvöt tók á móti Létti á Blönduósvelli í gær þegar leikið var í áttundu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, 4. deild D-riðli. Heimamenn byrjuðu af krafti í leiknum og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 8. mínútu en það gerði Akil Rondel Dexter De Freitas. Rétt fyrir leikhlé bætti svo Sigurður Bjarni Aadnegard við öðru marki og staðan 2-0 í hálfleik.

Sigurður Bjarni Aadnegard var aftur á ferðinni á 78. mínútu þegar hann skoraði laglegt mark og kom Kormáki/Hvöt í 3-0. Léttismenn náðu að minnka muninn á 89. mínútu með marki úr víti en á 5. mínútu í uppbótartíma fengu heimamenn einnig vítaspyrnu sem Sigurður Bjarni Aadnegard skoraði úr og fullkomnaði þar með þrennu sína í leiknum. Lokaniðurstaðan 4-1 fyrir Kormák/Hvöt sem situr í efsta sæti riðilsins með 21 stig.

Næsti leikur er gegn Vængjum Júpíters og fer hann fram á Fjölnisvelli laugardaginn 10. júlí klukkan 14.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga