Sýningin var formlega opnuð í gær
Sýningin var formlega opnuð í gær
Listakonan Hrafnhildur og sýningarstjórinn Áslaug fluttu ávörp
Listakonan Hrafnhildur og sýningarstjórinn Áslaug fluttu ávörp
Boðflenna
Boðflenna
....og önnur boðflenna
....og önnur boðflenna
Fréttir | 04. júlí 2021 - kl. 07:22
Boðflennur í Hrútey

Í gær var opnuð listarsýningin Boðflenna í Hrútey og verður hún opin almenningi til 28. ágúst. Um er að ræða risastórt útilistaverk eftir listakonuna Hrafnhildi Arnardóttir eða Shoplifter eins og Hrafnhildur kallar sig. Í verkinu stillir Shoplifter náttúruperlunni Hrútey og gervináttúruverkum sínum upp sem hliðstæðum sem einnig má skoða sem andstæður, samstæður eða gagnstæðar spegilmyndir.

Aðalhráefni Hrafnhildar er nælonhár, plast og annað gerviefni, sem hún vinnur með ýmiskonar hefðbundinni textíltækni s.s. flosi, rýja, þæfingu, hnútum, fléttum og saumaskap en efnið er líka í sumum tilvikum hitað, brennt, brætt, litað eða málað. Þegar ákjósanlegri þykkt og áferð hefur verið náð býr hún til voðir eða mottur, dúska, kaðla, bönd og annað sem hún nýtir til að skapa hið endanlega listaverk. Þeim efnivið mun hún umbreyta í þúfur, plöntur, skófir, blóm, runna, tré, steina, vörður, kletta o.s.frv.

Þegar gengið er um Hrútey verða á vegi manns lundir, flatir eða lautir sem listin hefur yfirtekið og við blasa óvæntir og ónáttúrulegir gestir í annars mjög náttúrulegu umhverfi eyjunnar. Þannig skapast togstreita milli þess raunverulega í landslaginu og innrásar verka Hrafnhildar sem reyna á mjúkan og lúmskan hátt að villa á sér heimildir í ríki náttúrunnar.

Hrafnhildur er í hópi fremstu samtímalistamanna þjóðarinnar og var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2019 en innsetning hennar, Chromo Sapiens vakti mikla athygli og var talin meðal þess sem hæst bar á sýningunni. Viðbúið er að sýning listakonunnar í Hrútey muni vekja athygli langt út fyrir landsteinana.

Samstarfsaðilar verkefnisins eru Blönduósbær, Textílmiðstöð Íslands - Þekkingarsetur á Blönduósi og Íslandsstofa. Verkefnið hefur hlotið styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra, Myndstefi og Myndlistarsjóði. Áslaug Thorlacius og Finnur Arnar eru sýningarstjórar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga