Fréttir | 06. júlí 2021 - kl. 18:21
Skoðanakönnun í Húnavatnshreppi um sameiningu við Blönduósbæ

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps tekur jákvætt í ósk Blönduósbæjar um formlegar sameiningarviðræður. Hún telur þó rétt að gera fyrst skoðanakönnun meðal íbúa um slíka sameiningu, sem færi fram samhliða alþingiskosningum 25. september. Þannig vill sveitarstjórnin tryggja sér umboð frá íbúum sveitarfélagsins til að fara í sameiningarviðræður við Blönduósbæ.

„Þó að mikil undirbúningsvinna hafi þegar farið fram, er grundvallarmunur á þessari sameiningu og þeirri sem felld var í júní síðast liðnum. Ef niðurstöður skoðanakönnunar sýna að meirihluti íbúa sveitarfélagsins vill fara í formlegar sameiningar viðræður, mun sveitarstjórn leggja allt kapp á að ljúka sameiningarviðræðum og kosningu eins hratt og hægt er, eigi síðar en í janúar 2022,“ segir í bókun meirihluta sveitarstjórnar Húnavatnshrepps á fundi hennar í dag.

Fulltrúar E-listans lögðu til á fundinum að farið yrði í formlegar sameiningarviðræður við Blönduósbæ nú þegar og sjá þeir ekki þörf fyrir skoðanakönnun. Það væri eðlilegt framhald í ljósi niðurstöðu sameiningarkosninganna 5. júní síðastliðinn þar sem afgerandi meirihluti íbúa Húnavatnshrepps sagði já við sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu.

Á fundinum samþykkti sveitarstjórn Húnavatnshrepps að skoðunarkönnun færi fram hjá þeim íbúum Húnavatnshrepps sem eru á kjörskrá til Alþingis 25. september 2021.

Skoðunarkönnunin mun innihalda eftirfarandi spurningu:

„Vilt þú að Húnavatnshreppur fari í sameiningarviðræður við Blönduósbæ?“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga