Ný og stærri aðveitustöð RARIK á Sauðárkróki. Mynd: rarik.is
Ný og stærri aðveitustöð RARIK á Sauðárkróki. Mynd: rarik.is
Fréttir | 07. júlí 2021 - kl. 09:42
Aukið afhendingaröryggi raforku í Skagafirði

Ný og stærri aðveitustöð RARIK á Sauðárkróki var tekin í notkun nýverið og er hún jafnframt öflugasta aðveitustöðin í dreifikerfi RARIK. Um leið eykst til muna afhendingaröryggi raforku á svæðinu. Dreifikerfi RARIK í Skagafirði tengist flutningskerfi Landsnets bæði í Varmahlíð og á Sauðárkróki. Fram til þessa hefur afhendingin á Sauðárkróki verið um einfalda línu Landsnets, en fer nú um tvær tengingar frá tengivirkinu í Varmahlíð.

Aðveitustöð RARIK tengist flutningskerfinu síðan um tvo aðskilda spenna á Sauðárkróki. Um er að ræða framkvæmdir hjá RARIK fyrir um 370 milljónir, að því er fram kemur á vef RARIK. Haft er eftir Tryggva Þór Haraldssyni, forstjóri RARIK, að endurbæturnar sé ánægjulegur áfangi í auknu afhendingaröryggi raforku á svæðinu. „Það hefur verið vaxandi orkuþörf í takti við aukna uppbyggingu í Skagafirði og því mikilvægt að styrkja orkuflutning- og dreifingu á svæðinu, en ekki síður að auka afhendingaröryggið. Við vonum að truflanir á raforkuafhendingu heyri brátt til algjörra undartekninga en þær hafa verið of algengar á síðustu árum. Því er ástæða til að óska Skagfirðingum til hamingju á þessum tímamótum“, segir Tryggvi Þór.

Stærri og fleiri spennar
Í nýju aðveitustöðinni á Sauðárkróki eru tveir 20 MVA 66/11 kV aflspennar og einn 3 MVA 33/11kV spennir í stað eins 10 MVA 66/11kV aflspennis og eins 2 MVA 33/11kV spennis í gömlu aðveitustöðinni. Hægt verður að reka innanbæjarkerfið á Sauðárkróki og sveitirnar í kring á hvorum hinna stóru spenna fyrir sig og má því segja að komin sé tvöföld tenging fyrir Sauðárkrók og jafnvel þreföld tenging fyrir sveitina ef tekin er með tenging við aðveitustöðina í Varmahlíð. Þar er nú verið að setja hluta Glaumbæjarlínu í jörð. Í aðveitustöðinni á Sauðárkróki eru sautján 11 kV háspennuskápar og tveir 33 kV háspennuskápar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga