Fréttir | 07. júlí 2021 - kl. 17:20
19 sóttu um starf verkefnisstjóra

Nítján vilja komast í starf verkefnisstjóra Sóknaráætlunar Norðurlands vestra. Starfið var auglýst nýverið en meginstarfstöð þess verður á Skagaströnd, auk fastrar vikulegrar viðveru á Blönduósi. Umsóknarfrestur rann út 30. júní og stendur úrvinnsla umsókna nú yfir. Búist er við að gengið verði frá ráðningu fyrir lok þessa mánaðar.

Helstu verkefni verkefnisstjóra eru umsjón með Sóknaráætlun landshlutans, þ.m.t. úthlutunarferli Uppbyggingarsjóðs, skýrslugerð, samskipti við styrkþega og upplýsingamiðlun um framgang áætlunarinnar. Verkefnisstjóri mun jafnframt sinna almennri atvinnuráðgjöf, aðstoð við gerð rekstrar- og markaðsáætlana, gerð styrks- og lánaumsókna, aðstoð við fjármögnun, stofnun fyrirtækja o.s.frv. Sérstök áhersla verður lögð á stuðning við menningartengda starfsemi á Norðurlandi vestra, eflingu hennar og fjölgun.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga