Fréttir | 11. júlí 2021 - kl. 10:29
Toppslagurinn tapaðist

Kormákur/Hvöt mætti Vængjum Júpíters á Fjölnisvelli í Reykjavík í gær þegar leikið var í níundu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, 4. deild D-riðli. Um toppslag í riðlinum var að ræða og úr varð hörku leikur tveggja sterkra liða sem ætluðu sér toppsætið. Heimamenn skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 4. mínútu en átta mínútum síðar jafnaði George Razvan Chariton metin fyrir gestina.

Rétt fyrir leikhlé fékk leikmaður Kormáks/Hvatar, Jose Mariano Saez Moreno, sitt annað gula spjald í leiknum og var rekinn af velli. Staðan í hálfleik jöfn 1-1 og Kormákur/Hvöt einum leikmanni færri sem eftir lifði leiks.

Seinni háfleikur einkenndist af mikilli baráttu og var hann nokkuð grófur á köflum. Sex gul spjöld og eitt rautt fóru á loft og ekkert var skorað fyrr en á 85. mínútu. Það gerðu heimamenn og bættu um betur á 89. mínútu og staðan orðin 3-1 þegar mínúta lifði leiks. Á 86. mínútu var öðrum leikmanni Kormáks/Hvatar, Ágústi Friðjónssyni, vikið af velli með beint rautt spjald. Heimamenn skoruð svo sjálfsmark í uppbótartíma og leikurinn endaði 3-2 fyrir Vængjum Júpíters.

Kormákur/Hvöt er í öðru sæti riðilsins með 21 stig eftir níu leiki, þremur stigum á eftir Vængjum Júpíters sem eru á toppnum með 24 stig. Hvíti riddarinn er í þriðja sæti og Léttir í því fjórða, bæði lið með 19 stig.

Næsti leikur Kormáks/Hvatar fer fram á Blönduósvelli á Húnavöku, laugardaginn 17. júlí klukkan 17.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga