Stúlli og Danni
Stúlli og Danni
Fréttir | 23. júlí 2021 - kl. 09:49
Brekkusöngur í Hvamminum í kvöld

Eldur í Húnaþingi er í fullum gangi á Hvammstanga og dagskrá dagsins er sérlega umfangsmikil og fjölbreytt. Má þar nefna kennslu í afrískum dansi og trommuslætti, stuttmyndasýningu, bjórjóga, púttmót, brunaslöngubolta, brekkusöng og tónleika með Stjórninni. Allir ættu að skella sér á Hvammstanga í dag og um helgina og taka þátt í gleðinni sem þar ríkir.

Klukkan 13 í dag kenna Mamady og Sandra Sano frá Dans Afríka Iceland afrískan dans frá Gíneu í vestur Afríku, við lifandi trommuslátt. Afró er menningarbomba sem styrkir og byggir upp þol og er alveg einstök upplifun að dansa við lifandi trommuslátt. Klukkan 14:30 verður hægt að kynnast menningu Gíneu í vestur Afríku með því að læra undirstöðutækni við að spila á djémbe trommur, undir stjórn Mamady Sano frá Dans Afríka Iceland.

Bjórjóga með Guðrúnu Helgu hefst klukkan 16 og er frábær leið til að núllstilla huga, líkama og sál. Hver og einn mætir með drykki að heiman en einn verður í boði Kalda á staðnum. Aldurstakmark er 18 ár.

Flemming – pútt verður haldið klukkan 16 í dag og eins og vant er fer það fram við heilsugæslustöðina á Hvammstanga. Spilaðar verða 2 x 18 holur í  flokkum kvenna og karla 17 ára og eldri og 2 x 18 holur í flokki 16 ára og yngri stlepur og strákar. Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjá í hverjum flokki. Hressing á staðnum og ekkert þátttökugjald.

Keppt verður í brunaslöngubolta á „mjólkurstöðvartúninu“ við Hvammstangabrautina klukkan 17:30. Um er að ræða hverfakeppni hátíðarinnar og keppa hverfin í 6-8 manna liðum. Hverfaskiptingin er eins og verið hefur undanfarin ár:
Rauður: Sunnan við Hvammsá og austan við Hvammstangabraut+Hrútafjörður+Bæjarhreppur.
Appelsínugulur: Norðan við Hvammsá og vestan við Norðurbraut + Víðidalur.
Blár: Norðan við Hvammsá og austan við Norðurbraut + Vatnsnes + Vesturhóp.
Gulur: Sunnan við Hvammsá og vestan við Hvammstangabraut + Miðfjörður + Línakradalur + Fitjárdalur.

Brekkusöngur í Hvamminum
Það var svo góð stemning á hátíðinni 2020 þegar umsjónaraðilar brydduðu upp á þeirri nýjung að hafa brekkusöng í Kirkjuhvamminum, að það verður endurtekið í ár. Þeir Stúlli og Danni sjá um tónlistina, svo það þarf ekki að gera annað en að mæta og njóta. Gott er að hafa það í hug að klæða sig eftir veðri, sólgleraugu og bermúdabuxur ef það er bongó og lopinn og teppi ef það er aðeins svalar en það. Brekkusöngurinn hefst klukkan 20:30. Hér er svo söngbókin, svo það er engin afsökun fyrir að taka ekki undir!

Dagurinn í dag endar á tónleikum með hljómsveitinni Stjórninni. Athugaði að um standandi tónleika er að ræða. Stjórnin fagnaði þrjátíu ára starfsafmæli árið 2019 og má segja að tónlist hljómsveitarinnar hafi lifað kynslóð eftir kynslóð. Þá hefur yngra tónlistarfólk verið duglegt að taka Stjórnarlögin upp á sína arma og hefur hljómsveitin verið afar vinsæl á „ball markaðinum. Hljómsveitin mun spila frá kl. 22:00 til kl. 24:00, en húsið verður opið til kl. 01:00 með tónlist á fóninum. 18 ára aldurstakmark og Eldsbarinn opinn.

Lesendur Húnahornsins eru hvattir til að kynna sér fjölbreytta og skemmtilega dagskrá Eldsins hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga