Fréttir | 15. ágúst 2021 - kl. 15:25
Sæti í úrslitakeppninni tryggt

Kormákur/Hvöt tók á móti Hvíta riddaranum á Blönduósvelli í gær þegar leikið var í 13. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, 4. deild D-riðli. Leikurinn var tíðindalítill framan af og staðan markalaus í hálfleik. Í seinni hálfleik lifnaði heldur betur yfir leikmönnum beggja liða og áður en leiktíminn var liðinn höfðu fjögur mörk verið skoruð.

Hvíti riddarinn skoraði fyrsta mark leiksins og kom það á 50. mínútu staðan orðin 0-1. Leikmenn Kormáks/Hvatar hrukku þá í gírinn og á 55. mínútu jafnaði Akil Rondel Dexter De Freitas leikinn. Viktor Ingi Jónsson skoraði mark á 70. mínútu og staðan orðin 2-1 fyrir Kormák/Hvöt. Akil Rondel Dexter De Freitas gulltryggði svo sigur heimamanna með marki úr víti á 80. mínútu. Úrslit leiksins 3-1 fyrir Kormák/Hvöt sem með sigrinum hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppni 4. deildar.

Vængir Júpíters eru á toppi riðilsins og hefur liðið einnig tryggt sér sæti í úrslitakeppninni. Vængir Júpíters eru með 36 stig eftir 13 leiki en Kormákur/Hvöt er með 33 stig eftir 13 leiki. Hvíti riddarinn og Léttir eru með 25 stig bæði lið í þriðja til fjórða sæti og eiga ekki lengur möguleika á að ná inn í úrslitakeppnina en ein umferð er eftir af riðlakeppninni.

Síðasti leikur Kormáks/Hvatar í riðlakeppninni fer fram á Hrafnagilsvelli laugardaginn 21. ágúst klukkan 14 og er gegn Samherjum. 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga