Valdimar sveitarstjóri, Þórdís ráðherra og Guðmundur Haukur forseti sveitarstjórnar. Mynd: blonduos.is/Jón Sig.
Valdimar sveitarstjóri, Þórdís ráðherra og Guðmundur Haukur forseti sveitarstjórnar. Mynd: blonduos.is/Jón Sig.
Fréttir | 16. ágúst 2021 - kl. 15:53
Ráðherra ferðamála heimsótti Hrútey

Á fimmtudaginn í síðustu viku heimsótti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Blönduósbæ og með henni í för var Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóra og fulltrúar frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Hópurinn skoðaði meðal annars framkvæmdirnar við Hrútey sem fengið hafa styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Blönduósbær fékk úthlutað í maí á þessi ári 15 milljónum króna vegna framkvæmda við jarðvegsvinnu, lýsingu og merkingar við Hrútey og þarf bærinn að leggja til 20% mótframlag. Umsóknum Blönduósbæjar hafði áður verið ítrekað hafnað en verkefnið hlaut viðurkenningu og styrk úr sjóðnum árið 2018 vegna umsóknar 2017 og nam hann 32 milljónum króna. Síðan þá hefur öllum umsóknum um styrki verið hafnað þangað til í vor.

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við Hrútey síðustu ár og öll aðstaða að verða hin besta. Nú síðast var gömlu Blöndubrúnni komið fyrir á varanlegum stað sem göngubrú út í eyjuna en síðustu vikur hefur brúargólfið verið í smíðum.  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga