Afstöðumynd. Mynd: www.vegagerdin.is
Afstöðumynd. Mynd: www.vegagerdin.is
Fréttir | 17. ágúst 2021 - kl. 20:49
Tilboð opnuð í nýjan Þverárfjallsveg

Í dag voru opnuð tilboð hjá Vegagerðinni í byggingu nýs Þverárfjallsvegar í Refasveit frá Hringvegi norðan Blönduóss að núverandi Þverárfjallsvegi, um 8,5 km að lengd og nýs Skagastrandarvegar frá nýjum Þverárfjallsvegi að Skagastrandarvegi norðan Höskuldsstaða, um 3,3 km að lengd. Þá á að byggja nýja 106 metra langa brú á Laxá á Refasveit og nýjar tengingar og heimreiðar samtals um 4,5 km að lengd.

Þrír verktakar buðu í verkið, Ístak hf. í Mosfellsbæ, Borgarverk ehf. í Borgarnesi og Skagfirskir verktakar ehf. á Sauðárkróki. Áætlaður verktakakostnaður nemur rúmar 1.390 milljónir króna og buðu Skagfirskir verktakar lægst í verkið eða tæplega 1.500 milljónir. Borgarverk bauð næst lægst eða um 1.627 milljónir og Ístak bauð hæst eða 1.636 milljónir. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. nóvember 2023.

Vegagerðin bauð einni út eftirlit með framkvæmdunum og lögðu þrjár verkfræðistofur fram tilboð; Hnit verkfræðistofa, Mannvit og Verkís. Þriðjudaginn 24. ágúst næstkomandi verður tilkynnt stigagjöf í hæfnisvali og verðtilboð hæfra bjóðenda.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga