Fréttir | 19. ágúst 2021 - kl. 11:37
Húnvetnsku laxveiðiárnar nálgast 3000 laxa

Laxveiði í sjö helstu laxveiðiánum í Húnavatnssýslum er komin í 2.919 laxa sem af er sumri. Miðfjarðará er eina áin sem náð hefur 1.000 laxa markinu en veiðst hafa 1.123 laxar í ánni og gaf síðasta vika 134 laxa. Næst mest hefur veiðst í Víðidalsá eða 461 lax og gaf síðasta vika 50 laxa. Veiðst hafa 444 laxar í Laxá á Ásum og þar af 26 síðustu vikuna. Hægst hefur verulega á veiði í Blöndu og veiddust einungis átta laxar í henni síðustu vikuna og er hún komi í 407 veidda laxa. Vatnsdalsá stendur í 256 löxum, Hrútafjarðará og Síká í 135 og Svartá í 93.

Eins og margoft hefur komið fram í laxafréttum Húnahornsins eru laxveiðitölurnar vonbrigði. Þó svo að veiðitölurnar sé svipaðar og síðustu tvö ár þá eru þær langt frá því sem þær voru mörg árin þar á undan. Um mánuður er eftir af laxveiðitímabilinu og útséð er með að sumarið teljist gott laxveiðisumar. Í fyrra enduðu þessar sjö laxveiði ár í 4.406 löxum og líklegt er að laxveiðitölurnar verði svipaðar í haust þegar laxveiðitímabilinu lýkur.

Til samanburðar þá veiddust 5.919 laxar í húnvetnsku laxveiðiánum sjö árið 2018. Sumarið 2017 veiddust yfir 8.000 laxar og sumarið 2016 var veiðin yfir 10.000 laxar. Árið 2015 var metár en þá veiddust tæplega 17.000 laxar í ánum, mest úr Miðfjarðará 6.028 laxar. Blanda setti þá met með 4.829 löxum og sama gerði Hrútafjarðará og Síka með 790 laxa og Svartá með 625 laxa. Laxá á Ásum endaði í 1.795 löxum, Víðidalsá í 1.572 löxum og Vatnsdalsá í 1.275 löxum. Það er af sem áður var.

Veiðitölur má nálgast á vefnum angling.is

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga