Fréttir | 26. ágúst 2021 - kl. 12:16
Skoðanakönnun um sameiningu sveitarfélaga samhliða alþingiskosningum

Samhliða alþingiskosningunum 25. september næstkomandi geta íbúar Húnavatnshrepps, sem náð hafa 18. ára aldri þann dag og hafa kjörgengi í sveitarstjórnarkosningum, tekið þátt í skoðanakönnun um hvort fara eigi í sameiningarviðræður við Blönduósbæ. Fyrr í sumar óskaði Blönduósbær eftir formlegum sameiningarviðræðum og tók sveitarstjórn Húnavatnshrepps jákvætt í þá ósk með þeim fyrirfara um að gerði yrði skoðanakönnun fyrir íbúa til að umboð sveitarstjórnar væri ljós.

Oddviti og sveitarstjórn Húnavatnshrepps hafa óskað eftir aðstoð RR ráðgjafar við útfærslu og framkvæmd skoðanakönnunarinnar og að RR ráðgjöf gerði tillögu að kynningarefni sem dreift yrði á hvert heimili og á vef sveitarfélagsins.

Í minnisblaði RR ráðgjafar til sveitarstjórnar er athygli vakin á því að afmörkun við kjörskrá alþingiskosninga útilokar íbúa sem ekki hafi íslenskan ríkisborgararétt frá þátttöku í skoðanakönnun. Rúm 6% íbúa hreppsins eru erlendir ríkisborgarar. Því sé rétt að miða þátttöku við alla íbúa sem náð hafa 18. ára aldri þann 25. september samkvæmt íbúaskrá í stað kjörskrá alþingiskosninga. Einnig leggur RR ráðgjöf til að íbúum verði gefinn kostur á að taka þátt í skoðanakönnuninni utan kjörfundar, bæði á skrifstofu sveitarfélagsins og hjá sýslumanninum á Blönduósi.

Þá leggur RR ráðgjöf til að spurningin á kjörseðlinum verði svona: „Vilt þú að Húnavatnshreppur fari í sameiningarviðræður við Blönduósbæ?“ Valmöguleikarnir verða „JÁ“ eða „NEI“. Skoðanakönnunin er svo leiðbeinandi fyrir sveitarstjórn Húnavatnshrepps og verða niðurstöður birtar á vef sveitarfélagsins.

Fréttin hefur verið uppfærð
Samkvæmt upplýsingum frá RR ráðgjöf hefur sýslumaður ekki samþykkt að hægt sé að taka þátt í skoðanakönnuninni samhliða utankjörfundi. 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga