Guðmundur Sigbergsson, framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands, Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. Ljósmynd: Pétur Halldórsson.
Guðmundur Sigbergsson, framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands, Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. Ljósmynd: Pétur Halldórsson.
Fréttir | 26. ágúst 2021 - kl. 12:20
Loftslagsbúskapur á Fjarðarhorni í Hrútafirði

Fyrsta vottaða kolefnisbindingarverkefninu sem íslenskt fyrirtæki ræðst í hefur verið valinn staður á Fjarðarhorni í Hrútafirði. Þar verða næstu 50 árin bundin um 90.000 tonn af koltvísýringi í nýjum skógi sem ræktaður verður á 250 hekturum lands. Ræktun og umhirða skógarins skapar atvinnutækifæri í byggðarlaginu auk þess sem tún verða áfram nýtt til landbúnaðar og hús á jörðinni fyrir vaxandi hóp starfsfólks í Staðarskála.

Þetta kemur fram á vef Skógræktarinnar. Festi hf. keypti fyrir nokkru jörðina Fjarðarhorn sem liggur að athafnasvæði Staðarskála. Tilgangur kaupanna var að nýta húsnæði á Fjarðarhorni fyrir starfsfólk Staðarskála þar sem umsvif hafa farið vaxandi. Um þessar mundir er verið að fjölga þar hleðslustöðvum fyrir rafbíla til muna á vegum N1, sem er eitt dótturfélaga Festar. Önnur dótturfélög eru Krónan, Elko og Bakkinn vöruhótel.

Á Fjarðarhorni hefur verið rekið sauðfjárbú. Bóndinn hafði um hríð reynt að selja jörð og bústofn en ekki tekist. Með kaupum Festar á jörðinni er tryggt að áfram verður fólk á staðnum en búskapurinn breytist úr sauðfjárrækt í skógrækt. Tún nýtast þó áfram bændum í sveitinni og gera má ráð fyrir að verktakar geti tekið að sér ýmsa verkþætti í undirbúningi og framkvæmd skógræktar ásamt skógarumhirðu og timburnytjum þegar fram í sækir. Áfram verður því búskapur og búseta á Fjarðarhorni og aðalbúgreinin loftslagsbúskapur.

Markmið Festar með skógræktinni á Fjarðarhorni er að binda kolefni á móti því sem fyrirtækið og dótturfélög komast ekki hjá að losa eins og sakir standa. Áfram verður unnið að því að draga úr losun en sömuleiðis hyggst félagið efna til fleiri skógræktarverkefna í öðrum landshlutum til að sýna ábyrgð í loftslagsmálum, bæta land og samfélag. Með tímanum verður skógurinn á Fjarðarhorni verðmætt útivistarsvæði auk þess að binda kolefni og skapa störf og verðmæti.

Skógræktin á Fjarðarhorni markar líka ákveðin tímamót í loftslagsaðgerðum á Íslandi. Loftslagsráð hefur gefið út álit þar sem skýrt er kveðið á um ábyrgar aðgerðir í loftslagsmálum. Árangur þeirra aðgerða sem ráðist í þarf að staðfesta með viðurkenndum aðferðum og þessa staðfestingu þarf að votta af óháðum aðilum. Gæðakerfið Skógarkolefni sem þróað hefur verið hjá Skógræktinni gerir nú kleift að búa til skráningarhæfar kolefniseiningar með nýskógrækt. Þessar einingar er hægt að versla með líkt og verðbréf og því er spáð að verð á slíkum einingum muni hækka í heiminum eftir því sem þrýstingur á loftslagsaðgerðir eykst. Einingarnar má svo telja fram á móti losun og ná þar með fram ábyrgri og vottaðri kolefnisjöfnun. Skráning í Loftslagsskrá tryggir að hver eining verður aðeins notuð einu sinni á móti losun. Enn sem komið er þurfa fyrirtæki ekki að gera slíkt en útlit er fyrir að þau verði skylduð til þess í framtíðinni. Stjórnendur í viðskiptalífinu eru að átta sig á því að ef þau vilja halda í góða ímynd er nauðsynlegt að sýna ábyrgð í loftslagsmálum og vinna að verkefnum þar sem árangurinn er staðfestur með áreiðanlegum hætti. Þar er óháð vottun á öllu ferlinu lykilatriði. Festi hefur nú riðið á vaðið og verður öðrum íslenskum fyrirtækjum gott fordæmi um ábyrg skref í loftslagsmálum.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga