Veitt í Svartá. Ljósm: AÞ
Veitt í Svartá. Ljósm: AÞ
Fréttir | 27. ágúst 2021 - kl. 09:33
Miðfjarðará fjórða aflamesta laxveiðiá landsins

Nú er liðið á seinni hluta laxveiðisumarsins og veiðitölur eftir því. Eins og margoft hefur komið fram í laxveiðifréttum Húnahornsins hefur veiðin verið dræm í sumar og það hefur lítið breyst síðustu vikuna. Miðfjarðará stendur sig best af helstu laxveiðiánum í Húnavatnssýslum. Alls veiddust þar 94 laxar síðustu vikuna og er áin komin í 1.217 laxa. Í Víðidalsá veiddust rúmlega 30 laxar síðustu vikuna og stendur áin í 492 veiddum löxum.

Laxá á Ásum er komin í 474 laxa en þar veiddust 30 laxar síðustu vikuna. Enginn lax er skráður veiddur í Blöndu síðustu sjö daga en áin fór á yfirfall um 21. ágúst og lítið hefur veiðst í henni síðan. Veiðst hafa 407 laxar í Blöndu. Vatnsdalsá er komin í 295 laxa með 39 laxa veidda síðustu viku. Hrútafjarðará og Síká er með 177 veidda laxa en þar veiddust 42 laxar síðustu vikuna. Svartá er komin í 114 laxa með 21 veiddan lax síðustu vikuna.

Aflamesta laxveiðiá landsins er Ytri-Rangá og vesturbakki Hólsár með 2.121 lax á 20 stangir. Eystri-Rangá er næst aflamest með 2.052 laxa og Norðurá kemur þar á eftir með 1.243 laxa. Miðfjarðará er fjórða aflamesta áin eins og er með 1.217 laxa eins og áður sagði.

Veiðitölur má nálgast á vefnum angling.is

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga