Skjáskot úr Morgunblaðinu í dag um fylgi flokka í Norðvesturkjördæmi.
Skjáskot úr Morgunblaðinu í dag um fylgi flokka í Norðvesturkjördæmi.
Fréttir | 31. ágúst 2021 - kl. 09:30
Mestur stuðningur við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk í Norðvesturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur njóta stuðnings nærri helmings íbúa Norðvesturkjördæmi. Samkvæmt samanteknum skoðanakönnunum MMR frá júní og ágúst er fylgi Sjálfstæðisflokksins mest eða 27,4% og fylgi Framsóknarflokksins er næst mest eða 20,8%. Fylgi Vinstri grænna er 11,6% og Samfylkingar 9,6%. Þar á eftir kemur Sósíalistaflokkurinn með 9,3%, Píratar með 6%, Miðflokkurinn með 5,9%, Flokkur fólksins með 4,1% og Viðreisn með 3,3%.

Fjallað er um fylgi og þingmenn kjördæma í Morgunblaðinu í dag og miðast það við samanteknar skoðanakannanir MMR frá júní og ágúst. Fylgi flokka er almennt mjög mismunandi eftir kjördæmum en segja má að Sjálfstæðisflokkurinn sé eini flokkurinn sem njóti verulegs stuðnings í öllum kjördæmum, þó merkilega lægst í höfuðborginni.

Ef niðurstöður alþingiskosninganna, sem fram fara 25. september næstkomandi, verða í samræmi við þessar kannanir verða kjördæmakjörnir þingmenn Norðvesturkjördæmis átta eða þessir: Þórdís K. R. Gylfadóttir (D), Stefán Vagn Stefánsson (B), Haraldur Benediktsson (D), Bjarni Jónsson (V), Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (B), Valgarður L. Magnússon (S) og Helga Thorberg (J). Bergþór Ólason (M) fær jöfnunarsæti. Þrír flokkar ná ekki inn manni í kjördæminu en það eru Viðreisn, Flokkur fólksins og Píratar.

Sjá nánari umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga