Félagsheimilið á Blönduósi
Félagsheimilið á Blönduósi
Fréttir | 15. september 2021 - kl. 21:21
Aðstaða til sýningahalds ótrygg í bíósal Félagsheimilisins á Blönduósi

Leikfélag Blönduóss skorar á Blönduósbæ að gera ráð fyrir endurnýjun á bíóstólum og lagfæringu á gólfi í bíósal Félagsheimilisins í fjárhagsáætlun ársins 2022 og bendir á að vel væri hægt að áfangaskipta verkefninu. Leikfélagið áréttar mikilvægi þess að ráðast í verkefnið fyrir menningarlíf og arfleið Blönduósinga. Þetta kemur fram í erindi sem leikfélagið hefur sent Blönduósbæ.

Á stjórnarfundi leikfélagsins í gær voru ræddar áhyggjur að aðstaðan í Félagsheimilinu til sýningahalds væri ótrygg fyrir komandi leikár þar sem ekki hefur verið lokið við að endurnýja bíósalinn eins og staðið hefur til í mörg ár. Félagsheimilið sé menningarhús Blönduósinga og slík hús hafi sannað mikilvægi sitt um land allt. „Menningarhús hafa ótvíræð jákvæð margfeldisáhrif, bæði á bæinn og nærsamfélög,“ segir í erindinu. Þess vegna skorar leikfélagið á Blönduósbæ að gera viðeigandi ráðstafanir og tryggja fjármögnun í fjárhagsáætlun næsta árs.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga