Tilkynningar | 15. september 2021 - kl. 21:27
Tilkynning frá sóknarnefndum Þingeyraklaustursprestakalls

Sóknarprestur sr. Sveinbjörn R. Einarsson hefur verið ráðinn prestur í Garðasókn og er því hættur störfum í Þingeyraklaustursprestakalli. Sóknarnefndirnar þakka sr. Sveinbirni langt og farsælt starf í þágu safnaðarins og óska honum og fjölskyldu hans velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Sr. Bryndís Valbjarnardóttir á Skagaströnd hefur verið settur sóknarprestur ótímabundið í hlutastarf til að þjóna íbúum prestakallsins.

Sóknarnefndir hafa sent mótmæli til biskups og kirkjuráðs, þar sem því er mótmælt, að ekki verði nú þegar auglýst staða sóknarprests í Þingeyraklaustursprestakalli. Biskup hefur svarað mótmælum sóknarnefnda á þann veg að nú sé í gildi ráðningarbann hjá Þjóðkirkjunni en vonast sé til að því banni verði aflétt á næsta kirkjuþingi í lok október. Biskup staðfestir í bréfinu að þá þegar verði staða sóknarprests auglýst laus til umsóknar og hefur falið sr. Döllu Þórðardóttur prófasti að undirbúa í samráði við sóknarnefndir, þarfagreiningu í prestakallinu, sem þarf að fara fram áður en auglýst er.

Ef þessi áform ganga eftir er gert ráð fyrir að nýr prestur taki við prestakallinu í upphafi næsta árs.

Fram til þess tíma mun sr. Bryndís þjóna prestakallinu og er hún boðin velkomin til starfa, jafnframt er Sr. Ursulu Árnadóttur þökkuð góð störf í forföllum sr. Sveinbjörns.

Það er von sóknarnefndanna að málefni sóknarprests í Þingeyraklaustursprestakalli leysist farsællega okkur öllum til heilla og farsældar.

Sóknarnefndir Þingeyraklaustursprestakalls.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga