Fréttir | 18. september 2021 - kl. 11:45
Laxveiðitímabilið vonbrigði

Laxveiðitímabilið er að renna sitt skeið þetta árið en flestar húnvetnskar laxveiðiár loka í þessum mánuði. Eins og margoft hefur komið fram í laxveiðifréttum Húnahornsins hefur verið rólegt yfir laxveiðinni í Húnavatnssýslum í sumar. Ágætis aflabrögð hafa þó verið í sumum ám í haust. Mest hefur veiðst í Miðfjarðará eða um 1.600 laxar, sem er svipuð tala og í fyrra. Í Víðidalsá hafa veiðst 630 laxar en lokatölur í fyrra voru 546 laxar. Þetta er í fyrsta skiptið sem veiðin í ánni nær ekki að fara yfir þúsund laxa fimm ár í röð.

Laxá á Ásum stendur í 579 veiddum löxum sem er með því daprasta sem þar hefur sést en áin endaði í 676 löxum í fyrra. Veiðin í Blöndu er einnig sérlega döpur, aðeins 418 laxar en í fyrra veiddust 475 laxar. Vatnsdalsá er enn ein áin sem valdið hefur vonbrigðum í sumar en aðeins hafa veiðst 370 laxar í ánni í sumar.

Af öðrum helstu laxveiðiám í Húnavatnssýslu er það að frétta að veiðst hafa 280 laxar í Hrútafjarðará og Síká en áin endaði í 372 löxum í fyrra. Svartá hefur skilað 165 löxum en endaði í 190 löxum í fyrra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga