Það snjóaði í fjöllin í nótt. Mynd: FB/Þorsteinn Hafþórs
Það snjóaði í fjöllin í nótt. Mynd: FB/Þorsteinn Hafþórs
Við Víðidalsá í morgun. Mynd: FB/Höskuldir B. Erlingsson
Við Víðidalsá í morgun. Mynd: FB/Höskuldir B. Erlingsson
Fréttir | 22. september 2021 - kl. 10:38
Haustið minnir á sig

Haustið er farið að minna á sig og í nótt hvítnað vel í fjöll í Húnavatnssýslum. Hálka eða hálkublettir eru á helstu fjallvegum svo eru vegfarendur beðnir um að fara varlega. Í dag eru haustjafndægur en þá er sólin beint yfir miðbaug og dagur og nótt eru jafnlöng um alla jörð. Eftir haustjafndægur tekur svo nóttina að lengja og daginn að stytta. Dagurinn í dag markar því upphaf hausts á norðurhveli jarðar.

Haustið er uppáhalds árstíðin hjá mörgum, þegar litaflóra landsins tekur breytingum. Gult, appelsínugult og rautt tekur við grænum klæðum sumarsins. Landið verður afar litríkt og ægifagurt og hauststillurnar ramma inn litadýrðina svo langt sem augað eygir.

Á efri myndinni sem fengin er af facebooksíðu Þorsteins Hafþórs er líkt og hvítur dúkur hafi verið lagður yfir Reykjanibbuna, Sauðadalinn og Vatnsdalsfjallið. Neðri myndin er af facebooksíðu Höskuldar B. Erlingssonar sem staddur er við Víðidalsá. Þar hefur snjóað í nótt og frosið í línum veiðimanna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga