Dagrún HU 121. Mynd: skagastrond.is
Dagrún HU 121. Mynd: skagastrond.is
Fréttir | 22. september 2021 - kl. 20:07
Drottningin Dagrún HU 121 er 50 ára

Dagrún HU 121 rann úr slipp í gær en árið 1971 var báturinn fyrst sjósettur úr Bátasmiðju Guðmundar Lárussonar á Skagaströnd og er því 50 ára um þessar mundir. Fyrstu fjögur árin hét báturinn Guðmundur Þór og var gerður út frá Skagaströnd.

Lýður Hallbertsson og kona hans Guðbjörg Eiríksdóttir keyptu svo bátinn árið 1975 ásamt Karli Hallbertssyni og gáfu honum nafnið Dagrún. Lýður og Guðbjörg keyptu nokkrum árum síðar hluta Karls og hafa þau gert Dagrúnu út síðan.

Dagrún bar skipaskrárnúmerið St 12 frá 1975 allt til ársins 2012 en þá var bátnum flaggað aftur til Skagastrandar. Dagrún er ennþá í eigu Lýðs og Guðbjargar og skipstjórinn síðustu ár eftir að Lýður lét af störfum er Eiríkur Lýðsson sonur þeirra hjóna.

Bátasmiðja Guðmundar Lárussonar smíðaði nokkra eikarbáta en Dagrún er eini eikarbáturinn úr smiðjunni sem ennþá er gerður út af fullum krafti og það sem meira er, alla tíð í Húnaflóa.

Sagt er frá þessu á vef Skagastrandar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga