Fréttir | 14. október 2021 - kl. 16:04
Engar ábendingar borist lögreglu

Lögreglan á Norðurlandi vestra lítur peningafölsun mjög alvarlegum augum og hefur til rannsóknar peningafölsunarmál eftir að tilkynnt var um falsaðan seðil í verslun á Sauðárkróki. Málið virðist ekki vera umfangsmikið en lögreglan tekur slíkum fölsunum alltaf af fullri alvöru og leggur sig fram við að rannsaka málið og upplýsa ef unnt er.

Rætt var við Birgi Jónasson, lögreglustjóra á Norðurlandi vestra, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag. Hann sagði að verslunareigandi í Skagafirði hafi tilkynnt um málið til lögreglum en um er að ræða einn 5.000 króna seðil sem virðist hafa slæðst með öðrum alvöru seðlum. Birgir sagði að seðillinn virtist vera ljósritaður á báðum hliðum og þær límdar saman. Hann sagði að seðillinn væri ekki ýkja raunverulegur.

Í fréttinni kom fram að lögreglan hefur ekki fengið neinar ábendingar um málið en hún sett inn tilkynningu á facebooksíðu sína nýverið þar sem biðlað var til almennings um að hafa augun opin og þeir sem byggju yfir upplýsingum ættu að hafa samband.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga