Fréttir | 22. október 2021 - kl. 08:08
Sjá ekki ávinning af sameiningu við Strandabyggð

Byggðarráð Húnaþings vestra sér ekki fram á beinan ávinning af sameiningu sveitarfélagsins við Strandabyggð, miðað við þau gögn sem lögð hafa verið fram og kynnt. Til að meta hugsanlega framtíðarsameiningarkosti telur byggðarráð þörf á frekari viðræðum milli sveitarfélaganna, að því er segir í fundargerð ráðsins.

Á byggðarráðsfundi á mánudaginn var lagt fram erindi frá Strandabyggð þar sem kynntar eru niðurstöður valkostagreiningar varðandi hugsanlega sameiningu Strandabyggðar við önnur sveitarfélög, sem unnin var af RR ráðgjöf. Gögnin voru send þeim sveitarfélögum sem nefnd eru í valkostagreiningunni og óskað er eftir afstöðu þeirra til viðræðna um sameiningu við Strandabyggð. Um er að ræða Árneshrepp, Kaldrananeshrepp, Reykhólahrepp, Dalabyggð og Húnaþing vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga