Blönduskóli
Blönduskóli
Fréttir | 26. október 2021 - kl. 09:27
Blönduskóli og Húnavallaskóli gætu sameinast næsta haust

Samstarfsnefnd um sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps leggur til að stjórnskipulag nýs sveitarfélags taki mið af þeirri tillögu sem kynnt var á íbúafundum í vor. Lagt er til að starfsstöð stjórnsýslu verði ein, staðsett á nýjum stað á Blönduósi og hafa ýmsir valkostir verið ræddir í því efni. Einnig er lagt til að á Húnavöllum verði umhverfisakademía og tiltekin verkefni þróunarsviðs sem tengist þeirri starfsemi. Þá verði jafnframt tiltekin verkefni framkvæmdasviðs staðsett á Húnavöllum.

Nefndin leggur til að sameinað sveitarfélag sinni sem flestum verkefnum sjálft og eftir atvikum bjóði öðrum sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu að kaupa þjónustu samkvæmt þjónustusamningi.

Sameining grunn- og leikskóla
Í fræðslumálum leggur nefndin til að byggt verði á sambærilegum hugmyndum og kynntar voru í vor. Það er að segja að Blönduskóli og Húnavallaskóli sameinist haustið 2022 í eina rekstrareiningu, ef sameining verður samþykkt. Sameinaður skóli verði með tvo kennslustaði og nær óbreytt fyrirkomulag fyrstu skólaárin. Starfsemin verði sameinuð á einn kennslustað eigi síðar en haustið 2024. Nefndin leggur áherslu á að undirbúningur að sameiningu skóla verði vandaður og í góðu samstarfi við foreldra, nemendur og starfsfólk. Skipulag sameinaðs skóla taki mið af þörfum nemenda úr dreifbýli og þéttbýli.

Þá leggur nefndin til að leikskólarnir Barnabær og Vallaból verði sameinaðir í eina rekstrareiningu, en með tvær starfsstöðvar, á Blönduósi og Húnavöllum. Á þann hátt mætti ná fram meiri samlegð í rekstri og mögulega betri nýtingu leikskólarýma.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga